Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Þorgrímur Jónsson

(um 1750–13. dec. 1825)

Bóndi, stúdent.

Foreldrar: Síra Jón Þorgrímsson að Hálsi í Fnjóskadal og kona hans Katrín Hallgrímsdóttir lögréttumanns á Svalbarði, Sigurðssonar. Lærði fyrst hjá síra Erlendi Jónssyni að Hrafnagili, síðan hjá Jóni konrektor Egilssyni (síðar presti að Laufási), tekinn í Hólaskóla 1766 og var þar um hríð, en lærði síðan aftur hjá síra Jóni Egilssyni að Laufási, varð stúdent 1774 úr heimaskóla frá Gísla byskupi Magnússyni og fekk samtímis predikunarleyfi frá honum. Það stóð til 1784, að hann yrði aðstoðarprestur síra Jóns Jónssonar að Kvíabekk, en Árni byskup Þórarinsson synjaði honum um vígslu, m. a. af því, að hann gæti ekki sýnt stúdentsvottorð; varð þá ekki meira af, enda andaðist síra Jón snemma á næsta ári. Þókti lítt lærður, en harðger og hraustmenni og þó góðmenni.

Bjó fyrst að Ytri Á (Gunnólfsá) í Ólafsfirði, síðan frá 1800 á Þóroddsstöðum, en lét af búskap 1818, fluttist þá að Kvíabekk og andaðist þar.

Kona (1776). Margrét (f. 1732, d. 10. nóv. 1811) Stefánsdóttir prests að Laufási, Einarssonar.

Sonur þeirra: Jón að Skáldalæk, flosnaði upp 1822, lenti að síðustu á sveit og andaðist 1862 (HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.