Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Þorgeir Guðmundsson

(27. dec, 1794–28. jan. 1871)

Foreldrar: Síra Guðmundur Jónsson á Staðastað og fyrsta kona hans Þorbjörg Jónsdóttir á Hlemmiskeiði, Ólafssonar. Tekinn í Bessastaðaskóla 1809, varð stúdent 1814, með góðum vitnisburði. Var síðan um hríð skrifari Magnúsar dómstjóra Stephensens í Viðey, fór utan 1819, skráður í stúdentatölu í háskólanum í Kh. 18. okt. s.á., með 1. einkunn, tók annað lærdómspróf 1820, með 1. einkunn, guðfræðapróf 29. okt. 1824, með 2. einkunn, próf í predikunarfræði 20. okt. 1826 og s. á. í trúkennslufræði, hvort um sig með 1. einkunn. Settur kennari í sjóliðsforingjaskólanum 27. dec. 1827, varð síðar yfirkennari þar, jafnframt 3. trúkennari 29. dec. 1830 í Brimarhólmssöfnuði, 2. trúkennari þar 29. ág. 1835, var og styrkþegi Árnasjóðs 1826–39, var í þágu hans og fornfræðafélagsins 1826 í handritarannsóknum í Stokkhólmi. Vígðist 25. sept. 1835, fekk Glólundarprestakall 1. jan. 1839, Nysted 8. febr. 1849 og andaðist þar. Var forseti Kh.-deildar bmf. 1831–9, og heiðursfélagi bmf. 1839. Hann vann nokkuð að útgerð Fornmannasagna 1825–37, Íslendingasagna (fornfræðafél.) 1829–30, sá um og þýddi Kormákssögu á latínu, Kh. 1832, þýddi (með öðrum): Möller: Leiðarvísir, Kh. 1822–3, Mynster: Hugleiðingar, Kh. 1839; meðritstjóri Ármanns á alþingi 1829–32. Sá um prentun á: Milton: Paradísarmissir, Kh. 1828; Klopstock: Messías, Kh. 1834–8; Björn Halldórsson: Atli, Kh. 1834. Lét endurprenta ýmsar íslenzkar guðsorðabækur.

Kona: María (f. 28. febr. 1806, d. 2. apr. 1879), dóttir Rasmusar umsjónarmanns Langelands.

Börn þeirra: Bjarni Þorsteinn ljósmyndari í Nysted, María átti Adrian Bekker kaupmann í Nysted, Þorbjörg átti Kr. B. Sidenius bóksala í Kh. (HÞ. Guðfr.; HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.