Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Þorbergur Ásmundsson

(um 1580–27. nóv. 1659)

Prestur.

Foreldrar: Ásmundur Þorsteinsson (á Grund, Guðmundssonar) og kona hans (þau áttust 1. nóv. 1580 á Grund) Þuríður Þorbergsdóttir, Bessasonar. Hefir orðið prestur að Tjörn í Svarfaðardal um 1605 og fekk þar ölmusupeninga 1608–12, en 1612 setti Guðbrandur byskup annan að Tjörn, og fekk þá síra Þorbergur Víðimýrarsókn og Geldingaholt til ábýlis. Hefir orðið kirkjuprestur að Hólum um 1620 (sumir telja, að hann hafi verið þar millibilsrektor og jafnvel ráðsmaður), fekk Miklagarð 25. maí 1635, en Grundarþing 1641, var prófastur í Vaðlaþingi frá 22. nóv. 1640 (kjörinn 12. okt. s. á.) til 1650, síðast kirkjuprestur aftur að Hólum frá 1650 til æviloka.

Hann hefir haft umboð Hólastóls í Svarfaðardal 1628–9 a.m.k., ef ekki lengur.

Kona: Guðrún Þorkelsdóttir Hólaráðsmanns, Gamalíelssonar. Dóttir þeirra: Helga fyrsta kona síra Gunnlaugs Sigurðssonar í Saurbæ í Eyjafirði (HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.