Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Ólafur Ólafsson („stúdent “)

(25. apríl 1806 [22. apríl 1807, Vita]–7. febr. 1883)

Prestur.

Foreldrar: Ólafur Jónsson að Uppsölum í Blönduhlíð og kona hans Guðbjörg ljósmóðir Semingsdóttir (móðursystir Hjálmars skálds Jónssonar að Bólu).

Síra Benedikt Vigfússon að Hólum tók hann til sín, kenndi honum, kom honum síðan fyrir til kennslu hjá stjúpföður sínum, síra Birni Halldórssyni í Garði (þetta ekki nefnt í Vita). Þar var Ólafur 2 vetur, átti þá barn (með Elísabetu Sigmundsdóttur): Jóhannes, sem varð fulltíða (fekk hann uppreisn fyrir þetta 23. maí 1832), var síðan aftur 1 vetur hjá síra Benedikt sem síðan kom honum til síra Árna Helgasonar í Görðum, en hann veitti honum stúdentsvottorð, með góðum vitnisburði.

Var síðan nokkur ár skrifari Lárusar sýslumanns Thorarensens, bjó síðan á ýmsum stöðum eða var í húsmennsku, frá 1850 var hann hjá Lárusi sýslumanni á Enni, fekk Hvamm í Laxárdal 7. apr. 1852, vígðist 5. sept. s. á., fekk 19. apr. 1853 Reynistaðarklaustur, í skiptum við síra Pál Jónsson, og fór sama vor að búa á hluta í Hafsteinsstöðum, fekk Dýrafjarðarþing 2. apr. 1864, en Hvamm í Laxárdal aftur 23. ág. 1866, fluttist þangað vorið 1867, fekk Fagranes 15. febr. 1875, fluttist þangað um vorið, fekk lausn frá prestskap 30. nóv. 1876 frá fardögum 1877, hafðist síðan við hér og þar í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum, var oft í málarekstri fyrir kunningja sína, en til þess hafði hann jafn- an Verið hneigður og oft tekizt vel. Var síðast til heimilis á Páfastöðum, en andaðist í Brennigerði á ferð. Hann var gáfumaður, vel að sér, kennimaður og raddmaður góður, skáldmæltur (sjá Lbs.), mesti greiðamaður, en hviklyndur og nokkuð drykkfelldur.

Kona (1831): Guðrún (d. 1878) Guðmundsdóttir í Marbæli, Kolbeinssonar. Dætur þeirra: Guðbjörg Solveig Kristjana Maren, átti launbarn, giftist síðan fyrst Kristjáni smið Jónssyni, síðar Jóni skipstjóra Eiríkssyni á Bakka í Arnarfirði, Ragnheiður Sigríður varð ráðskona að Hólum, hjá síra Benedikt. Laundóttir síra Ólafs talin Guðrún (f. 19. jan. 1856) átti fyrr Stefán Jónasson á Páfastöðum, síðar Albert Kristjánsson sst. (Lbs. 48, fol.; Vitæ ord. 1852; HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.