Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Ólafur Árnason

(um 1707–20. sept. 1754)

Sýslumaður.

Foreldrar: Síra Árni Jónsson í Saurbæjarþingum og Ingibjörg, laundóttir Magnúsar lögmanns Jónssonar að Ingjaldshóli. Tekinn í Skálholtsskóla 1723, stúdent 1729, var fyrst í þjónustu Jóns byskups Árnasonar, en frá 1730 Orms sýslumanns Daðasonar, en 1732 Benedikts lögmanns „ Þorsteinssonar, og 28 gegndi Þingeyjarsýslu eftir lát hans (1733–4). varð skrifari Lafrentz amtmanns 1734, fulltrúi hans í utanför hans frá því í ágúst 1736 þangað til um miðjan júní 1737, fekk Barðastrandarsýslu 14. mars 1737, sagði af sér 1752, settur sýslumaður í Ísafjarðarsýslu sumarið 1754, bjó fyrst í Bæ á Rauðasandi stuttan tíma, en síðan í Haga, talinn vel að sér, einkum í lögum, góður þeim, er leituðu hans, en harður sýslubúum sínum, og var eignað konu hans, gerðist drykkfelldur mjög með aldri, og er talið, að það drægi hann til dauða, varð bráðkvaddur á ferð á Vatneyri.

Kona: Halldóra (f. um 1718, d. í Laugardal 29. dec. 1800) Teitsdóttir prests á Eyri í Skutulsfirði, Pálssonar; eru ýmsar sagnir um hana og fégirnd hennar.

Börn þeirra: Teitur stúdent, síðast djákn í Hítardal, Þórunn átti síra Benedikt Hannesson í Miðdalaþingum, síra Magnús í Bjarnanesi. Launsonur Ólafs (1732) með Guðrúnu Hjaltadóttur prests að Vatnsfirði, Þorsteinssonar: Sigurður klausturhaldari að Kirkjubæjarklaustri. Dóttir Ólafs (f. um 1752) með Sigríði Pálsdóttur að Kletti, Grímssonar: Ólöf átti Þórð Gíslason að Hnjóti í Patreksfirði (BB. Sýsl.; Blanda V; HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.