Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Ólafur Stephensen (Björnsson)

(um 1792–2. nóv. 1834)

Bóndi, stúdent.

Foreldrar: Björn dómsmálaritari Stephensen og f.k. hans Margrét Jónsdóttir sýslumanns að Espihóli, Jakobssonar. F. á Hvítárvöllum. Ólst að mestu upp hjá föðurföður sínum, lærði í heimaskóla, fekk stúdentsvottorð 1816, líklega hjá Geir byskupi Vídalín, þótt ekki finnist það nú, kvaðst 4. jan. 1817 ekki hugsa til prestskapar og neitaði að svara hinum venjulegu guðfræðispurningum, sem lagðar voru árlega fyrir stúdenta.

Bjó í Þingnesi frá 1817, í Galtarholti frá því um 1820, í Saltvík á Kjalarnesi frá 1827, fluttist í húsmennsku að Leirá 1831 og andaðist í Melkoti, hjáleigu þar. Honum búnaðist lítt, enda heilsulítill af innanmeinum lengi.

Kona (20. júní 1817). Anna (f. 11. sept. 1792, d. 10. maí 1865) Stefánsdóttir umboðsm. að Ingjaldshóli, Schevings; hafði hún áður (1815) átt barn í lausaleik (Lárus) með Guðmundi smið Sigurðssyni á Hítardalsvöllum.

Börn þeirra Ólafs, sem upp komust: Helga átti Bjarna hreppstjóra Brynjólfsson á Kjaransstöðum, Margrét átti Sigurð trésmið Jónsson í Reykjavík, Stefán í Kalmanstungu, Þórunn, Oddgeir að Skógum í Flókadal, Jónas, Hannes (HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.