Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Ólafur Stefánsson

(um 1658–1741)

Prestur.

Foreldrar: Síra Stefán skáld Ólafsson í Vallanesi og kona hans Guðrún Þorvaldsdóttir að Auðbrekku, Ólafssonar. Bjargaðist 24. dec. 1672 úr snjóflóði á Klyppsstað, þar er hann var að námi, mun hafa lært í Skálholtsskóla, fór utan 1683, skráður í stúdentatölu í háskólanum í Kh. 16. nóv. s. á., fekk vonarbréf fyrir Vallanesi 24. dec. 1684, vígðist þangað 18. nóv. 1688, lét þar af prestskap 1738, er kominn í kör 1740, enn á lífi í mars 1741.

Hann er orðinn prófastur í Múlaþingi 1709, en sleppti því starfi eftir nokkur ár. Var skáldmæltur (sjá Lbs.), kom sér vel, ekki talinn mikill lærdómsmaður, en gáfu- og skynsemdarmaður. Hann greiddi mjög fyrir Árna Magnússyni um útvegun handrita eystra.

Kona (1692, kaupmáli 12. sept. 1691). Halldóra (d. 1738) Björnsdóttir sýslumanns að Munkaþverá, Magnússonar. Af börnum þeirra eru talin hafa komizt upp: Margrét átti síra Sigurð Eiríksson á Skeggjastöðum, Stefán gerðist farmaður, andaðist á leið til Austurindía (HÞ; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.