Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Ólafur Pétursson

(23. dec. 1661–2. júlí 1719)

Prestur.

Foreldrar: Síra Pétur Jónsson að Upsum og kona hans Solveig Jónsdóttir prests á Völlum, Egilssonar. Tekinn í Hólaskóla 1676, stúdent líkl. 1686, var síðan í þjónustu Jóns byskups Vigfússonar, eftir það í þjónustu Millers amtmanns, fekk Glaumbæ 1694, Garða á Álptanesi að veitingu amtmanns 9. ág. 1695 (í skiptum við síra Egil Sigfússon), en með því að síra Jón Vídalín, síðar byskup, fekk konungsveiting fyrir Görðum 1696, varð síra Ólafur að víkja og fluttist að Bakka, en síra Jón var oftast í Skálholti, vegna veikinda Þórðar byskups, og gegndi hann því að mestu prestakallinu á meðan og í utanför síra Jóns Vídalíns til byskupsvígslu, tók hann síðan aftur við Görðum að fullu 28. maí 1698 og hélt til æviloka, varð prófastur í Kjalarnesþingi vorið 1699, skoraðist undan að taka við því starfi, en varð að gera það að boði byskups, sagði því af sér 1708.

Kona (1693): Margrét Elísabet, dóttir Bogens, sem var „Amtsforvalter“ í Haderslev; hún kom út með Muller amtmanni, bjó á Hausastöðum eftir lát manns síns, virðist enn á lífi 1738, f. um 1664.

Börn þeirra komust eigi upp (HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.