Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Ólafur Pálsson

(14. júní 1803–22. mars 1849)

Prestur.

Foreldrar: Síra Páll Hjálmarsson á Stað á Reykjanesi og kona hans Ingibjörg Bjarnadóttir prests á Mel, Péturssonar. F. að Hólum í Hjaltadal. Naut tilsagnar föður síns. Tekinn í efra bekk Bessastaðaskóla 1821, stúdent 12. júní 1826, með meðalvitnisburði. Missti prestskaparréttindi 1827 vegna barneignar með Ingibjörgu Jónsdóttur verzlunarstjóra í Kúvíkum, Salómonssonar, er hann var sagður trúlofaður (það barn dó s.á.), fekk uppreisn 28. apríl 1830, bjó að Miðhúsum á Reykjanesi frá 1828, fekk Otradal 15. mars 1833, vígðist 24. s.m. og hélt til æviloka, drukknaði á Arnarfirði. Var karlmannlegur maður, hraustmenni að burðum og glímumaður, heldur vel gefinn, allgóður söngmaður, mjög glaðlyndur og drykkfelldur, lítill búmaður.

Kona (13. sept. 1827): Sigríður (f. 19. apr. 1808, d. 17. dec. 1890) Ingimundardóttir hreppstjóra að Miðhúsum, Grímssonar. Af börnum þeirra komust upp: Steinunn átti Ólaf Thorlacius í Dufansdal, Filippía s.k. sama manns (Bessastsk.; Vitæ ord. 1833; HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.