Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Ólafur Jónsson

(– – 21. dec. 1755)

Prestur.

Foreldrar: Síra Jón Jónsson á Staðastað og kona hans Kristín Ólafsdóttir að Stóra Ási í Hálsasveit, Vigfússonar. Tekinn í Skálholtsskóla 1716 (eða 1715), stúdent 1719, var í Skálholti hjá frænda sínum, Jóni byskupi Árnasyni, veturinn 1723–4, en byskup taldi hann þá enn ekki hæfan til prestskapar, var þá enn til viðbúnaðarnáms hjá föður sínum veturinn 1724–5, vígðist 1. júlí 1725 aðstoðarprestur föður síns, dæmdur frá prestskap 30. júní 1734, vegna launungar í barnsfaðernismáli systur sinnar, Sigþrúðar blindu; barnið (síra Bjarni að Mælifelli) var kennt Jóni nokkurum, er verið hafði vinnumaður á Staðastað, en almennt talið, að annar bróðir hennar (Ólafur blindi) ætti það. Bjó að Fossi í Staðarsveit, mun 1737 hafa flutzt norður að Stað í Steingrímsfirði, fekk uppreisn 6. nóv. 1739, fekk Stað á Snæfjallaströnd 1740 og hélt til æviloka. Fær lélegan vitnisburð hjá Jóni byskupi Árnasyni, og í skýrslum Harboes er hann talinn einhver hinn ólærðasti prestur í Skálholtsbyskupsdæmi.

Kona (1726 eða 1727). Katrín (d. 1771) Jónsdóttir prests á Gilsbakka, Eyjólfssonar; þau bl. (HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.