Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Ólafur Hallsson

(1605–11. dec. 1681)

Prestur.

Foreldrar: Síra Hallur Ólafsson að Höfða og kona hans Ragnhildur Eiríksdóttir prests að Auðkúlu, Magnússonar. Lærði í Hólaskóla, fór utan 1626, skráður í stúdentatölu í háskólanum í Kh. 13. nóv. s.á., kom til landsins 1628, fór aftur utan 1629, fekk 18. maí 1630 vottorð frá Ole Worm og kom þá til landsins, en talið er, að hann hafi og stundað nám í Jena og Wittenberg og verið í Rostock, Hamborg og Lybeck, vígðist 1632 aðstoðarprestur föður síns, var síðan 4 ár kirkjuprestur að Hólum, fekk 8. júlí 1639 Grímstungur og hélt til æviloka, hafði raunar sagt af sér prestskap. þar 5. sept. 1681, varð prófastur 30. apr. 1644, sagði því starfi af sér 22. apr. 1669. Prestar nyrðra ætluðu honum byskupsdæmið eftir lát Þorláks byskups Skúlasonar, en hann baðst undan því. Hann var talinn einn hinn mesti merkisprestur á sinni tíð og manna lærðastur.

Í rithöfundaskrám er hann talinn hafa þýtt fjölda guðsorðarita (jafnvel 19 postillur og 36 önnur guðrækileg rit). Í handritum eru nú til eftir hann þýðing vikubæna Jos. Stegmanns og Paradísar-aldingarðs Jóh. Arndts.

Kona 1 (um 1632). Margrét (d. 8. sept. 1650) Bjarnadóttir prests á Grenjaðarstöðum, Gamalíelssonar.

Börn þeirra, sem upp komust: Bjarni í Hvammi í Vatnsdal, síra Þorsteinn í Miklagarði, Sigríður átti Gunnar (föðurnafns ekki getið) að Giljá.

Kona 2 (13. maí 1651): Solveig Bjarnadóttir að Steiná, Ólafssonar.

Börn þeirra, sem upp komust: Bjarni d. í Hólaskóla, síra Hallur í Grímstungum, Margrét átti Grím lögréttumann Jónsson á Guðrúnarstöðum í Vatnsdal, Grímur smiður að Hömrum í Tungusveit (HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.