Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Ólafur Gíslason (Mála-Ólafur)

(14, febr. 1727–12. sept. 1801)

Prestur.

Foreldrar: Síra Gísli Jónsson í Saurbæjarþingum og kona hans Anna Sofía Lárusdóttir lögmanns Gottrups. Lærði í Hólaskóla, stúdent 23. júní 1748, dvaldist síðan í Grunnasundsnesi, enda var hann alinn þar upp (síðar arfleiddur af fósturmóður sinni, Sigríði Salómonsdóttur, og manni hennar), fekk uppreisn fyrir barneignarbrot 21. febr. 1755, vígðist 17. okt. 1756 aðstoðarprestur föður síns, fekk prestakallið 1765, við uppgjöf hans, fór utan s. á., gerði ýmsar tillögur um kirkjumál, vildi t.d. setja nýjan byskupsstól í Vestfirðingafjórðungi að Helgafelli, dæmdur frá embætti 15. júlí 1768, vegna árásar á Ólaf amtmann Stefánsson o. fl., og var þá sendur utan í gæzlu, fekk uppreisn og Saurbæjarþing aftur 30. okt. 1770, bjó í Hvítadal, dæmdur frá öllum prestsréttindum 14. júlí 1786, fyrir töku á hryssu, þetta staðfest í hæstarétti 9. júní 1792; fekk hann þó 28. sept. s. á. konungsleyfi til að bera prestshempu.

Eirði hann síðar óvíða og strauk, þótt hafður væri í gæzlu, var frá 1799 á Hallbjarnareyri og andaðist þar.

Hann þókti vel gefinn ungur, en gerðist snemma ofstopamaður og geðbilaður á köflum, svo að hélt við fullu æði. Átti sífellt málaþjark við ýmsa menn, einna mest við Magnús sýslumann Ketilsson. Var hagmæltur (sjá Lbs. og Thott 1698, 4to.); pr. er eftir hann að Hólum 1775 „Einn lítill iðrunarspegill“, þýðing sálma eftir S. Lycke.

Kona (29. sept. 1755): Kristín Jónsdóttir lögréttumanns á Jörfa í Kolbeinsstaðahreppi, Ólafssonar.

Börn þeirra, sem upp komust: Jón stúdent í Búðardal, Jóhann ókv. og bl., Sigríður varð úti, Sigríður önnur átti Nikulás Þorsteinsson að Orrahóli, Halldóra mikilhæf kona, óg., en átti launbarn með kvæntum manni, Jóni Þorleifssyni að Fremri Brekku og síðar annað (síra Halldór í Tröllatungu) löngu seinna með sama manni, Anna Sofía komst á flæking, óg. og bl. Launsonur síra Ólafs (með Sigríði Einarsdóttur): Síra Sigurður aðstoðarprestur í Miðdal (Þorst. Þorsteinsson: Magnús Ketilsson; HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.