Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Ólafur Gíslason

(7. dec. 1691–2. jan. 1753)

Byskup.

Foreldrar: Gísli lögréttumaður Ólafsson í Ytri Njarðvík og kona hans Guðbjörg Jónsdóttir lögréttumanns sst., Halldórssonar hertekna. Tekinn í Skálholtsskóla 1707, stúdent 1712, varð þá sveinn Jóns byskups Vídalíns, vígðist kirkjuprestur í Skálholti 1. jan. 1717, varð prófastur í Árnesþingi 7. júlí 1724, gegn mótmælum sínum, fekk Odda að veitingu 28. dec. 1725, fluttist þangað næsta ár, varð prófastur í Rangárþingi 28. jan. 1727; honum var boðið Hólabyskupsdæmi 1744, en hann skoraðist algerlega undan því, aftur 1745 var honum af kirkjustjórnarráði boðið Skálholtsbyskupsdæmi, og fyrir tilmæli Harboes hét hann að taka við því, en skip, sem hann ætlaði þá með, braut í spón, og notaði hann sér þetta atvik til að skorast enn undan, en það var ekki tekið gilt, svo að hann varð að fara til Kh. 1746, fekk veiting 24. mars 1747, vígðist 23. apríl s.á., tók við stólnum samsumars og hélt til æviloka. Hann var talinn fyrir öðrum prestum á sinni tíð, bæði að mannkostum og kennimannshæfileikum, fær mikið lof í skýrslum Harboes og í bréfum Jóns byskups Árnasonar. Hann fekkst við lækningar á prestsárum sínum.

Hann vildi greina að fjárráð stólsins frá embættinu, en því var ekki sinnt, og á hinum þungu árum byskupstíðar hans gekk fé af honum, enda örlátur maður, svo að þrotabú varð eftir hann, þótt góður búmaður væri. Tillögur um skólamál 1733 eru til eftir hann og síðan aftur 1748. Nýtt skólahús lét hann setja upp, og stóð það, meðan skóli var í Skálholti. Meðan hann var utan til vígslu, gerði hann ýmsar tillögur, er lutu að kirkjumálum, og komst sumt í framkvæmd. Visitazíubækur hans eru í þjóðskjalasafni, en bréfabækur ekki til.

Kona: Margrét Jakobsdóttir prests að Kálfafelli, Bjarnasonar. Af börnum þeirra komust upp: Síra Þorkell officialis að Hólum, síra Gísli á Breiðabólstað á Skógarströnd (JH. Bps. 1; HÞ).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.