Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Ólafur Guðmundsson

(um 1656–1731)

Prestur.

Foreldrar: Guðmundur Jónsson í Siglunesi og kona hans Sigríður Ásgrímsdóttir skálds að Höfða á Höfðaströnd, Magnússonar.

Lærði í Hólaskóla, varð síðan djákn að Munkaþverá, fór utan 1684 með Birni sýslumanni Magnússyni, enda var hann og í þjónustu hans um hríð eftir það, fekk 14. mars 1685 vonarbréf fyrir Grundarþingum eða Hrafnagili, hvoru sem fyrr losnaði, vígðist sumarið 1692 aðstoðarprestur síra Bjarna Hallssonar í Grundarþingum, fekk prestakallið eftir hann 1693, en Hrafnagil 1695, varð prófastur í Vaðlaþingi 1707 (hafði áður verið aðstoðarprófastur og ekki viljað taka við prófastsstörfum 1698), missti prestskap 1716, vegna barneignar (með Þóru Jónsdóttur), bjó síðan í Kristnesi (er þar 1722), en andaðist á Höskuldsstöðum. Hann var atgervismaður, laginn við lækningar, ef til vill og hagmæltur (sjá Lbs.).

Kona (kaupmáli 26. sept. 1693): Anna Stefánsdóttir prests og skálds í Vallanesi, Ólafssonar.

Börn þeirra, sem upp komust: Síra Stefán á Höskuldsstöðum, Margrét fyrsta kona síra Björns Magnússonar á Grenjaðarstöðum (HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.