Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Ólafur Eiríksson

(um 1667–1748)

Prestur.

Foreldrar: Eiríkur Rafnsson á Ketilsstöðum á Völlum og kona hans Ingibjörg Sigfúsdóttir prests í Hofteigi, Tómassonar. Lærði í Hólaskóla, varð djákn á Þingeyrum, fekk vonarbréf fyrir Breiðabólstað í Vesturhópi 11. apr. 1696, en meðan sá staður væri ekki laus, fekk hann Hjaltastaði í Útmannasveit 1698, varð 1711 aðstoðarprestur síra Ólafs Þorvarðssonar á Breiðabólstað í Vesturhópi, afsalaði sér 16. maí 1716 vonarbréfinu fyrir þessu prestakalli í hendur síra Ormi Bjarnasyni, fekk 1716 Miðdalaþing að veitingu Odds Sigurðssonar, en varð að fara þaðan 1719, er síra Guðmundur Eiríksson fekk uppreisn, gegndi prestsverkum í Hvammi í Hvammssveit fardagaárið 1719–20 í veikindum síra Magnúsar Magnússonar og eftir lát hans og síðan, þangað til síra Þórður Þórðarson tók við, settur prestur í Saurbæjarþingum 19. júlí 1722, fekk þau að veitingu 23. júlí 1723, bjó fyrst að Staðarhóli, en frá því 1725 í Stóra Holti og frá 1737 að Litla Múla, fekk Tröllatungu 1743, í skiptum við síra Jón Jónsson, og hélt til æviloka. Hann var talinn allvel gefinn, mikilhæfur í ýmsu og vinsæll, en hégómlegur í sumum háttum; fær og allgóðan vitnisburð í skýrslum Harboes, en talinn óstöðugur. Hann var af sumum nefndur „erill“, með því að hann eirði illa á sama stað.

Nafnið „Mehe“ festist við hann, af því að hann hafði ritað undir umsóknina um vonarbréf fyrir Breiðabólstað aftan við nafn sitt „Mehe“, þ. e. með eiginhendi, en kanzellíið hefir haldið það vera ættarnafn, og er því svo nefndur í konungsbréfinu 1696.

Kona: Björg Einarsdóttir prests að Eiðum, Jónssonar,

Börn þeirra: Ingibjörg átti Magnús stúdent Jónsson í Snóksdal, Þrúður s.k. Bjarna koparhauss Jónssonar að Felli í Kollafirði, Hvoli í Saurbæ og Tjaldanesi, Þorbjörg, síra Jón skáld í Tröllatungu (HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.