Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Ívar Haraldsson

(– – 1652)

Prestur. Þess hefir verið til getið, að hann kynni að vera sonur Haralds Ketilssonar (sem kemur við skjöl 1591–2 og síðar, átt hefir jörð í Hornafirði og kunnugur hefir verið í Breiðdal) og þá konu hans Ingibjargar Arngrímsdóttur. Annars bendir Ívarsnafnið til síra Ívars Markússonar. Skjöl eru og til frá 1633, sem benda á það, að síra Ívar Haraldsson hefir a.m.k. verið kunnugur í Rangárþingi (Alþb. Ísl.). Hann er orðinn prestur fyrir 1628, má vera að Eiðum, er með vissu nokkuru síðar orðinn prestur á Klyppsstað, var þar, er hann var dæmdur frá prestskap 1639 fyrir afglöp í barnsskírn, fekk uppreisn 1650 og þá Dvergastein og Fjörð í Mjóafirði og hélt til æviloka. Hann er að vísu við vísitazíu í Firði í Mjóafirði 1645, með Þorsteini, syni sínum, en ella eru skilríki fyrir því, að hann hefir búið í Brimnesi í Seyðisfirði. Hann hefir vafalaust verið tvíkvæntur, og sonur hans þá með f.k. Þorsteinn í Firði í Mjóafirði. S. k. síra Ívars var Guðbjörg (enn á lífi veturinn 1675–6) Ármadóttir prests hins fyrra á Skorrastöðum, Sigurðssonar.

Synir þeirra: Eyjólfur á Þórarinsstöðum í Seyðisfirði, Brandur. Guðbjörg ekkja síra Ívars átti síðar Kolla Björnsson í Brimnesi í Seyðisfirði, en varð síðast s.k. Jóns Jónssonar í Brimnesi, áður að Krossi í Mjóafirði og Dvergasteini, og lifði hann (HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.