Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Ísleifur Þorleifsson

(– –Íí ágústlok 1700)

Prestur.

Foreldrar: Þorleifur að Tindum í Geiradal Einarsson (prests á Stað á Reykjanesi, Guðmundssonar) og kona hans Guðrún Halldórsdóttir í Arnarholti, Helgasonar. Var í æsku á vegum síra Einars Torfasonar á Stað á Reykjanesi, síðar á Stað í Steingrímsfirði (en hann átti barn við móður hans, og varð af málavafstur mikið). Hann hafði lært grísku hjá síra Páli Björnssyni í Selárdal. Tekinn í Skálholtsskóla 1676, stúdent 1680, fór utan samsumars, skráður í stúdentatölu í háskólanum í Kh. 14. sept. s. á., varð attestatus í guðfræði, kom til landsins 1682, tók við Garpsdal að beiðni byskups 1683, vígðist 22. júlí s. á. (gegndi og Reykhólum, en bjó að Tindum); um 1687 varð misklíð af litlu efni með honum og Jóni Magnússyni að Miðhúsum; dró byskup taum síra Ísleifs, og sóknamenn hans (beggja kirkna) vildu halda honum, en með samningi 31. júlí 1687 tókst hann á hendur aðstoðarprestsstarf hjá síra Jóni Magnússyni á Eyri í Skutulsfirði og skyldi gegna aðallega Hólssókn í Bolungarvík (líkl. frá næsta ári, en átti þó heima á Eyri); stóð að beiðni byskups fyrir prestskosningu í Garpsdal sumarið 1688, var af Hólssóknarmönnum kvaddur samkvæmt þessum samningi til prests þar 19. sept. 1688, en kosinn af Eyrarsóknarmönnum til prests 18. ág. 1689, því að þá sagði síra Jón að öllu af sér, tók að fullu við Eyri 26. maí 1690 og hélt til æviloka.

Hann virðist hafa verið hæfileikamaður og naut trausts byskups. Meðan hann var utanlands, var hann um tíma í Stokkhólmi, vann hjá fornfræðadeildinni þar, sneri á latínu sögum af Katli hæng og Grími loðinkinna (þýðingin pr. í Uppsölum 1697). Þýðingar á guðsorðaritum í handritum (Píslarhugvekjur eftir Jóh. Lassenius, Trúargreinir eftir Sigwat Tubingensis, Trúargreinir eftir Jóh. Birkeröd, Náðarinnar andlega kauptíð úr dönsku), sem sumar heimildir eigna honum, virðast nú ekki vera til í handritasöfnum.

Kona (konungsleyfi vegna þremenningsfrændsemi 31. mars 1690): Sigríður Jónsdóttir prests á Stað í Súgandafirði, Torfasonar.

Börn þeirra: Helga átti Þorvald Jónsson í Haukadal í Dýrafirði, síra Torfi á Stað í Súgandafirði, síra Guðmundur í Nesþingum, Einar, Elísabet. Sigríður ekkja síra Ísleifs átti síðan eftirmann hans, síra Pál Þórðarson (HÞ.; Saga Ísl. V; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.