Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Ásmundur Jónsson

(1703–9. nóv. 1757)

Prestur.

Foreldrar: Síra Jón Jónsson á Breiðabólstað á Skógarströnd og kona hans Þuríður Ásmundsdóttir prests sst., Eyjólfssonar. Tekinn í Skálholtsskóla 1717, stúdent þaðan 1720; var síðar til nánara náms hjá Jóni byskupi Árnasyni í Skálholti. Vígðist aðstoðarprestur föður síns 12. nóv. 1724 og fekk prestakallið við uppgjöf hans 15. febr. 1732).

Settur prófastur í Snæfellsnessýslu 24. okt. 1740 (til 1741) og aftur 1745– 7. Hann var allvel gefinn, dagfarsgóður og vel þokkaður. Orkti vikusálma af bænum Lassenii (prentaðir í Vikuoffri, Hól. 1780, síðar í Viðey 1837).

Kona (1733): Þorbjörg (d. 1778) Þórðardóttir prests á Staðastað, Jónssonar.

Börn þeirra, er upp komust: Síra Jón á Breiðabólstað, Jens (d. í Skálholtsskóla 29. mars 1756), Þuríður átti fyrr Jón sýslumann Eggertsson á Hvítárvöllum, en síðar síra Markús stiftprófast Magnússon í Görðum á Álptanesi (HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.