Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Ásmundur Gunnlaugsson

(10. febr. 1789 [20. febr. 1791, Bessastsk.]––10. febr. 1860)

Prestur,

Foreldrar: Síra Gunnlaugur Magnússon að Reynistaðarklaustri og kona hans Arnfríður Þorláksdóttir lögréttumanns að Núpufelli, Sigfússonar. F. á Ríp í Hegranesi. Var ungur tekinn til fósturs af Páli rektor Hjálmarssyni, sem kenndi honum skólalærdóm, tekinn í efra bekk Bessastaðaskóla 1810, stúdent þaðan 1812, með góðum vitnisburði. Var um tíma skrifari hjá Castenschiold stiftamtmanni. Vígðist 23. júlí 1815 aðstoðarprestur síra Páls Gunnarssonar í Saurbæjarþingum, gegndi þeirri stöðu 3 ár, eða þangað til síra Páll lét af prestskap, og bjó þá ókvæntur að Staðarhóli, til 1819, er eigandi jarðarinnar, síra Eggert Jónsson að Ballará, lét bera hann út, enda voru málaferli með þeim, fluttist þá að Kollabúðum, en varð aðstoðarprestur síra Engilberts Jónssonar í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd (1820). Eftir lát hans (1820) fekk hann 16. mars s. á. Hvanneyri í Siglufirði. Varð hann þar brátt óþokkasæll. Var honum kennt þar barn 1823, en hann synjaði fyrir, varð úr mál og honum fyrst um sinn vikið frá prestskap. Komst og 1824 í annað mál fyrir vitorð með vinnumanni sínum um stuld á planka, en sýknaður 1825 í landsyfirdómi. Sókti hann þá um lausn frá prestsskap og fór frá Hvanneyri 1825. Bjó hann næsta ár í Hvanndölum, en 1826 að Fjalli í Sléttahlíð, að Torfmýri, hjáleigu frá Flugumýri, 1828–32, þá í Litla Dal, en síðast í Mikley í Vallhólmi, þaðan lét hann flytja sig í banalegunni að Víðivöllum og andaðist þar. Var lítt þokkaður í Skagafirði, þókti áleitinn og brögðóttur, hins vegar var hann talinn fjölgáfaður til munns og handa, skrifari góður og hestamaður, vel hagmæltur og orðheppinn. Bjó lengi með ráðskonum.

Kona (6. júlí 1852): Anna (f. 19. sept. 1832) Jóhannsdóttir frá Stekkjarflötum, Hrólfssonar.

Börn þeirra 2; dó annað mánaðargamalt, hitt hét Arnfríður Sofía. Ekkja hans gekk síðar að eiga Jóhannes póst Pétursson úr Eyjafirði, og fluttust þau til Vesturheims (Vitæ ord. 1815; HÞ.; SGrBf.)).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.