Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Ásmundur Eyjólfsson

(um 1616–1702)

Prestur.

Foreldrar: Eyjólfur Helgason í Leirárgörðum og kona hans Ljótunn Ásmundsdóttir prests í Miklaholti, Nikulássonar. Stúdent úr Skálholtsskóla um 1640, var síðan um hríð sveinn Árna lögmanns Oddssonar, vígðist 1646 aðstoðarprestur síra Þorláks Bjarnasonar að Helgafelli, en fekk Breiðabólstað á Skógarströnd 1650 og hélt til dauðadags. Varð prófastur í Snæfellsnessýslu 1691. Varð fyrir fésektum í prestastefnu á Þingvöllum 12. júlí 1693 fyrir aðgerðir sínar í kríumáli síra Jóns Jónssonar í Hítarnesi. Komst á síðustu æviárum í mál við Guðmund Jasonson West af tíundarmáli, en prestur reyndist sýkn saka. Tók 1690 sér til aðstoðarprests síra Jón Jónsson, tengdason sinn, sem 31. dec. 1686 hafði fengið vonarbréf fyrir staðnum eftir hann, samhliða uppreisn fyrir barneign. Honum er eignuð ein latnesk staka (í formála kvæða síra Stefáns Ólafssonar, Kh. 1886).

Kona 1: Guðrún laundóttir Jóns Teitssonar frá Holtastöðum.

Börn þeirra: Eyjólfur í Grunnasundsnesi, Brynjólfur lögréttumaður að Ingjaldshóli, Rögnvaldur að Valshamri, Þuríður átti síra Jón Jónsson eftirmann föður hennar, Gunnvör átti Daða Hannesson í Vík í Eyrarsveit, Sigríður átti fyrr Ásgeir Jónsson, síðar Jón Arason, Guðrún átti Vigfús hreppstjóra Þorsteinsson í Ytra Fagradal, Halldóra f.k. Magnúsar Þorsteinssonar, bl., Jón dó ókv. og bl.

Kona 2: Ragnhildur (f. um 1649) Hannesdóttir, Daðasonar, bl. (HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.