Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Ásgrímur Vigfússon

(5. júlí 1758 [1756, Vitæ] –19. dec. 1829)

Prestur.

Foreldrar: Vigfús Helgason spítalahaldari á Hallbjarnareyri og skáld og kona hans Ingibjörg Helgadóttir tíuauraskeggs í Brekkubæ.

F. á Hellisvöllum. Lærði undir skóla hjá síra Vigfúsi Erlendssyni að Setbergi. Tekinn í Skálholtsskóla 1773, stúdent þaðan 20. apr. 1780, talinn í vitnisburðarbréfinu hafa ekki sljóar gáfur, en skarpgreindari í verklegum efnum en bóklegum, og er látið vel af hegðan hans. Var síðan 1 ár með föður sínum, vígðist 14. okt. 1781 aðstoðarprestur síra Jóns Þorgilssonar í Breiðavíkurþingum og fekk prestakallið við uppgjöf hans 15. febr. 1788. Bjó fyrst í Einarslóni 1782–", síðan í Brekkubæ 1787–93, en eftir það að Laugarbrekku. Varð brátt heldur óþokkasæll hjá sóknarfólki sínu og átti deilur við ýmsa, einkum Hnausa-Bjarna (Jónsson); dæmdi Jón Espólín um deilur þeirra; hann var og mikill fjandmaður síra Ásgríms, en dómur Espólíns var ónýttur fyrir æðra dómi. Var dæmdur frá prestskap (en ekki prestsréttindum) 1793 (staðfest í prestadómi á alþingi 12. júlí 1794) fyrir að hafa gefið saman hjón ólöglega, gegn banni sýslumanns. Var hann síðan embættislaus um hríð og átti enn sökótt. Fór utan um 1803 til þess að fá uppreisn til prestskapar, sem hann fekk 18. maí 1804, og fekk aftur Breiðavíkurþing 18. febr. 1805. Var nú heldur kyrrt um hann um hríð. En 29. nóv. 1821 kærði Sigurður Guðlaugsson, sem verið hafði settur sýslumaður í Snæfellsnessýslu, hann fyrir byskupi fyrir ýmsar sakir, einkum hneykslanlegt framferði. Varð af mál og rannsókn og síra Ásgrímur dæmdur frá kjóli og kalli fyrir prófastsrétti 7. okt. 1822 og síðan í synodalrétti 22. ág. 1823. Dóminum skaut hann til hæstaréttar; fór hann síðan til Kh. (dvaldist þar frá 1. sept. 1824 þangað til snemma í maí 1826), fekk gjafsókn og var sýknaður algerlega 17. mars 1826. Varð hann síðan enn prestur í Breiðavíkurþingum til dauðadags og átti ekki eftir þetta sakir við aðra. Síra Ásgrímur hefir verið ertingasamur og deilugjarn og orðið því illa þokkaður, en margt var þó vel um hann.

Hann var atorku- og dugnaðarmaður í búsýslu, smiður góður og yfirleitt vel gefinn til munns og handa, skrifari góður og hefir skrifað upp merk handrit, fróðleiksmaður, hefir samið viðauka byskupasagna síra Jóns Halldórssonar (pr. með þeim) og hagmæltur. Hann var meðalmaður, laglega vaxinn, ekki sérlega fríður, en sómdi sér vel.

Fekk verðlaun fyrir jarðabætur 1788, 1790, 1796, 1802 og 1818.

Hann smíðaði skip og báta og timburhús, gróf brunna.

Kona (23. júlí 1786): Sigríður (f. 8. maí 1759, d. 1840) Ásgeirsdóttprests á Stað í Steingrímsfirði, Jónssonar.

Börn þeirra: Jón var 2 mánuði í Bessastaðaskóla, rekinn þaðan fyrir stuld á osti (d. á Aðalbóli í Miðfirði 11. júní 1862), Vigfús, Karítas (d. 26 ára gömul), Kristín átti Guðmund hreppstjóra Jónsson í Mávahlíð, Þórunn s.k. síra Gríms Pálssonar að Helgafelli (Vitæ ord.; Árb. Espólíns; Ævisaga sama; HÞ.: SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.