Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Ásgeir Stadfeldt (Jónsson)

(29. júlí 1786–16. jan. 1831)

Sórenskrifari.

Foreldrar: Síra Jón Ásgeirsson í Nesþingum og kona hans Sigríður Einarsdóttir prests að Vindási í Kjós, Torfasonar. F. í Hítardal. Lærði undir skóla hjá síra Birni Þorgrímssyni að Setbergi (1801–3), tekinn í Reykjavíkurskóla hinn eldra 1803, var þar og í Bessastaðaskóla, stúdent þaðan með heldur góðum vitnisburði 1807. Fór utan s. á., en tafðist í Noregi og Jótlandi vegna styrjaldarinnar, lauk aðgönguprófi í háskólanum í Kh. í okt. 1809 með 1. einkunn, skráður í stúdentatölu 9. nóv. s. á., lauk báðum hlutum annars lærdómsprófs 6. okt. 1810 og 7. apr. 1811 með 1. einkunn, en embættisprófi í lögfræði 13. jan. 1813 með 1. einkunn í bóklegu, en 2. einkunn í verklegu prófi. Fór um vorið til Niðaróss og varð heimiliskennari hjá Trampe stiftamtmanni, hvarf þaðan eftir 14 mánuði, en varð vegna sænskra herskipa að dveljast 7–8 mánuði nálægt Stafangri, fekk í ársbyrjun 1815 leyfi til að vera málflutningsmaður í Björgvin, og var það hálft ár, en s.á. herdómari í Frederikshald, frá ársbyrjun 1818 herdómari í 1. fótgönguliðshersveit, sem kennd var við Akershus, en frá 1816 hafði hann leyfi til málflutnings í Smálénaamti, skipaður 1820 sórenskrifari í Idde- og Markerhéruðum og var það til dauðadags, andaðist í Frederikshald. Ásgeir var mikill gáfumaður, einkum vel að sér í tungumálum. Um 1812 veitti hann Rask aðstoð við prentun síðara hluta orðabókar síra Björns Halldórssonar.

Kona (23. jan. 1818): Anna (f. 12. júní 1781), Brun (og var faðir hennar herforingi, en hún ekkja), og áttu þau 2 börn (Bessastsk.; HÞ.; Tímar. bmf. 1882).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.