Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Ásgeir Jónsson

(9. febr. 1779–13. nóv. 1835)

Prestur.

Foreldrar: Síra Jón Ásgeirsson í Holti í Önundarfirði og kona hans Þorkatla Magnúsdóttir prests á Söndum, Snæbjarnarsonar. F. á Mýrum í Dýrafirði.

Naut kennslu hjá föður sínum og settist 1797 í Reykjavíkurskóla hinn eldra, stúdent þaðan 1. júní 1800, talinn hafa skarpar gáfur í stúdentsvottorðinu.

Var síðan með foreldrum sínum, en vígðist aðstoðarprestur föður síns að Holti 2. sept. 1804 og bjó til móts við hann þar á staðnum, til þess er hann andaðist (1810) og gegndi prestakallinu og jafnframt prófastsembætti eftir hann í vesturhluta Ísafjarðarsýslu til vors 1811, en bjó síðan 1811–16 á eignarjörðu sinni, Sæbóli á Ingjaldssandi, og gegndi þó áfram prófastsembættinu, til þess er hann fekk Brjánslæk 2. apr. 1816 og fluttist þangað þá um sumarið, settur prófastur í Barðastrandarsýslu 16. sept. 1820, en skipaður 31. júlí 1821, fekk Holt í Önundarfirði 30. ág. 1821, fluttist þangað vorið 1822 og var aftur skipaður prófastur í vesturhluta Ísafjarðarsýslu; hélt hann hvoru tveggja til dauðadags. Tók vorið 1830 Jón, son sinn, til aðstoðarprests, fekk honum Holt til ábúðar 1832, en fluttist sjálfur á kirkjujörðina Þórisstaði. Drukknaði í Holtsvöðlum, einn á ferð. Hann var gáfumaður, kennimaður góður, hraustur og harðger, en allmjög drykkfelldur.

Kona (23. sept. 1802): Rannveig (d. 1865) Mattíasdóttir stúdents í Vigur, Þórðarsonar.

Börn þeirra, er upp komust: Síra Jón á Rafnseyri, Mattías hreppstjóri á Eyri í Seyðisfirði, skipstjóri, síðast í Flatey, Magnús verzlunarmaður á Dýrafirði og í Ólafsvík, síðast í Hafnarfirði, Þorkatla átti Vigfús hreppstjóra Eiríksson í Neðra Breiðadal í Önundarfirði, Matthildur átti síra Magnús Þórðarson á Rafnseyri, Hjalti, ókv. og bl., Ásgeir (Johnsen) borgari á Ísafirði, Halldóra átti fyrr Guðmund Guðmundsson skipstjóra í Ögri, en síðar Guðmund smið Jónsson að Uppsölum í Seyðisfirði (Vitæ ord. 1804; HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.