Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Ásgeir Jónsson

(1722–27. ág. 1779)

Prestur.

Foreldrar: Síra Jón Pálsson á Stað í Steingrímsfirði og kona hans Solveig Jónsdóttir prests á Breiðabólstað á Skógarströnd, Jónssonar. Tekinn í Skálholtsskóla 1740 (sat þar ekki veturinn 1743–4), stúdent 21. júlí 1746, með góðum vitnisburði, vígðist aðstoðarprestur föður síns 1747 og bjó að Ósi, síðar Kirkjubóli, fekk Tröllatungu 26. apr. 1758 og tók við staðnum 6. júní s. á., en Stað í Steingrímsfirði 18. júlí 1767, við uppgjöf föður síns, og sat þar til dauðadags. Varð aðstoðarmaður föður síns í prófastsdæmi 1. sept. 1758, en skipaður til fulls prófastur í Strandasýslu 23. nóv. 1761. Hann var maður höfðinglegur og fríður sýnum, skörungur mikill og búmaður, en allmjög drykkfelldur.

Kona 1 (kaupmáli 30. júlí 1751): Kristín (d. 1772) Guðnadóttir prests í Nesþingum, Jónssonar.

Börn þeirra: Snæbjörn Stadfeldt, Dr. jur., bæjarfógeti í Randers, síðast birkidómari í Estrupbirki, síra Jón í Stapatúni, Sigríður átti síra Ásgrím Vigfússon Hellnaprest, Solveig átti síra Björn Benediktsson í Hítardal.

Kona 2 (30. júlí 1773): Kristín (d. á Brjánslæk 13. jan. 1798, 48 ára) Bergsveinsdóttir prests á Stað í Grunnavík, Hafliðasonar, þau bl. (HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.