Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Árni Þorvarðsson

(um 1650–2. ág. 1702)

Prestur.

Foreldrar: Síra Þorvarður Árnason á Klifstað og kona hans Ólöf Ketilsdóttir prests á Kálfafellsstað, Ólafssonar. Stúdent úr Skálholtsskóla um 1669, fór utan sama haust, skráður í stúdentatölu í háskólanum 30. nóv. 1669, var þar 2 ár og stundaði vel nám, hefir líklega orðið attestatus. Var um hríð í þjónustu Þórðar byskups Þorlákssonar.

Vígðist 7. jan. 1677 að Þingvöllum, en fekk veitingarbréfið 8. ág. s.á. Fekk konungsleyfi til þess að verða aðstoðarprestur í Odda 5. júní 1680 og fá prestakallið eftir síra Þorleif Jónsson. En líklega hefir síra Þorleifur ekki þókzt þurfa hans, enda var síra Árni á Þingvöllum til dauðadags. En samtímis þessu (21, maí 1680) fekk síra Jón Halldórsson í Borgarþingum veitingarbréf frá konungi fyrir Þingvöllum. Varð af þessu stapp nokkurt, en lauk með gerð í prestastefnu 5. júlí 1682. Hann var prófastur í Árnesþingi frá 1691 til dauðadags og officialis í Skálholtsbyskupsdæmi, meðan Jón byskup Vídalín var í vígsluför utanlands. Síra Árni var einn fyrirklerka landsins, ræðumaður ágætur og andríkur, gáfaður og lærður vel, manna gestrisnastur og glaðlyndastur, skáld gott á íslenzku og latínu.

Sneri á íslenzku hinum stærra katekismus Lúthers (pr. í Skálholti 1691), síðara hluta Kingóssálma (pr. í Skálholti 1693), heillaóskakvæði eftir hann til Þórðar byskups aftan við Paradísarlykil (Skálh. 1686), rímvísur aftan við rím Þórðar byskups (Skálh. 1692). Brot úr líkræðu (ævisögu) hans yfir Þórði byskupi Þorlákssyni er í ÍB. 471, 4to. „De montis Heclæ incendio 1693“ er í háskólabókasafni í Osló (Deichmannssafn 103 4to).

Enn fremur má víða finna í handritum einstaka sálma eftir hann.

Kona (1679): Guðrún (f. um 1661–2, d. 1707) Þorkelsdóttir prests í Görðum á Álptanesi, Arngrímssonar.

Börn þeirra: Síra Þorkell kirkjuprestur í Skálholti, síðar aðstoðarprestur á Breiðabólstað í Fljótshlíð, d. í pestinni miklu 1707, Ólafur heyrari í Skálholti (nefndi sig Vídalín), fekk Bergsstaði í Svartárdal, en dó óvígður, síra Sigurður að Krossi í Landeyjum, Þorsteinn (nefndi sig Vídalín), fór ungur utan og var í skóla hjá móðurbróður sínum, Arngrími rektor Vídalín í Nakskov, gerðist hermaður, en Oddur lögmaður Sigurðsson leysti hann úr herþjónustu, og í þjónustu hans var hann í Kh. 1715–16, en strauk vorið 1716 (með Rússum) og spurðist ekki til hans framar, Vilborg f.k. síra Vigfúsar Jóhannssonar í Kaldaðarnesi, Guðrún átti Þorgils stúdent Sigurðsson á Hofstöðum í Miklaholtshreppi, Ólöf átti Böðvar stúdent Pálsson á Slítandastöðum, Hildur dó óg., Gróa, Oddur (HÞ.; Saga Ísl. V; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.