Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Árni Þorsteinsson (Thorsteinsen)

(17. sept. 1801–24. mars 1848)

Sýslumaður.

Foreldrar: Þorsteinn Runólfsson í Keflavík á Snæfellsnesi og kona hans Solveig (d. 2. apr. 1828) Bjarnadóttir frá Tröð í Neshrepp, Snorrasonar. F. á Vaðstakksheiði. Missti föður sinn 1810 og var þá tekinn til fósturs af Jóni kaupmanni Kolbeinssyni í Stykkishólmi, sem kenndi honum allan skólalærdóm, en stúdent úr heimaskóla frá kennurum Bessastaðaskóla 1825. Fór utan 1826 og nam dönsk lög í háskólanum í Kh., lauk þar prófi 27. okt. 1828 með 1. einkunn í báðum prófum. Kom út 1829 og varð þá umboðsmaður Arnarstapajarða, setti bú í Krossnesi í Eyrarsveit 1830 og bjó þar til dauðadags. Fekk 6. maí 1834 veiting fyrir Ísafjarðarsýslu, afsalaði sér henni 15. nóv. s.á., en hélt þar samt umboðsmann, þangað til annar sýslumaður (Þorkell Gunnlaugsson) kom þangað árið eftir. Fekk 15. apr. 1842 Snæfellsnessýslu og hélt til dauðadags. Banamein hans var lifrarveiki. Þókti stjórnsamur og röggsamur, búmaður góður og dugnaðarmaður.

Kona (26. júlí 1832): Christense Benedikte (f. 12.nóv. 1805, d. 13. maí 1869) dóttir Andrésar Steenbachs „ kaupmanns í Dýrafirði, ekkja frænda síns Óla Steenbachs verzlunarstjóra í Stykkishólmi, sem drukknaði 19. mars 1831.

Börn þeirra, er upp komust: Andrea f. k. Guðbrands ljósmyndara Guðbrandssonar í Rv., Jón bókbindari á Grímsstöðum við Rv., Karólína óg. og bl., Jakobína átti Stefán Jónsson (Daníelsson) í Grundarfirði, Georg veitingamaður á Akranesi, drukknaði 6. jan. 1884 (Tímar. bmf. III; BB. Sýsl.; HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.