Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Árni Ámundason

(um 1650–1700)

Prestur.

Foreldrar: Ámundi lögréttumaður og klausturhaldari í Ytri Skógum undir Eyjafjöllum Þormóðsson og kona hans Solveig Árnadóttir frá Saurbæ á Kjalarnesi Eyjólfssonar. Þegar hann hafði lokið skólanámi, gekk hann í þjónustu síra Björns Snæbjarnarsonar á Staðastað, en átti síðla árs 1673 barn með dóttur hans, Þorbjörgu eldri, og kvæntist henni skömmu síðar, en prestastefna á Þingvöllum 1676 leyfði honum að takast á hendur kennimannsstöðu. Vígðist aðstoðarprestur tengdaföður síns 23. júlí 1676 og gegndi því starfi, til þess er síra Björn andaðist, 1679, og síðan prestakallinu að öllu leyti til næsta árs. Bjó síðan embættislaus nokkur ár í Syðri Tungu í Staðarsveit. Fekk vonarbréf fyrir Setbergi 8. apr. 1682 og fluttist þangað aðstoðarprestur 1689, en tók að öllu við prestakallinu við lát fyrirrennara síns, 1692, og var þar til dauðadags.

Hann hneigðist til drykkju á efri árum.

Börn hans og Þorbjargar (d. 1733, 79 ára) voru 6, en þau, er upp komust, dóu bl., svo að ekki manna er af þeim komið. Eftir lát barna sinna arfleiddi Þorbjörg (20. ág. 1708) Sigurð sýslumann Jónsson á Hvítárvöllum að öllum eignum sínum (HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.