Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Árni Sigurðsson

(1732–25. mars 1805)

Prestur.

Foreldrar: Síra Sigurður Jónsson í Holti undir Eyjafjöllum og kona hans Valgerður Jónsdóttir í Laugarnesi, Þórðarsonar. Tekinn í Skálholtsskóla 1747, stúdent þaðan 26. maí 1751, síðan 1 ár djákn að Þykkvabæjarklaustri, fór þá utan, skráður í stúdentatölu 16. dec. 1752 og lauk embættisprófi í guðfræði 12. mars 1754, með 3. einkunn, fekk aldursleyfi til prestvígslu 5. apr. s. á., kom til landsins og var kvaddur til kirkjuprests í Skálholti 28. júní s. á., en prestvígður 25. ág. s.á. Var þar 9 ár.

Meðan hann var í Skálholti hét hann eiginorði Dagrúnu Jónsdóttur lögréttumanns að Sandlæk, Þorleifssonar (systur Bjarna rektors í Skálholti), en rifti því, og varð af stapp nokkurt. Fekk 18. júní 1763 Breiðabólstað á Skógarströnd, varð prófastur í Snæfellsnessýslu 1791, en 23. mars 1793 fekk hann Holt undir Eyjafjöllum (eftir síra Pál, bróður sinn) og var þar til dauðadags. Síra Árni var sagður allvel gáfaður og dágóður ræðumaður, en nokkuð harðlyndur og kaldlyndur. Eitt kvæði má finna eftir hann á latínu (ÍB. 355, 8vo., og Thott 489, 8vo.).

Kona (1768): Kristín (f. 1743, d. 8. mars 1791) Jakobsdóttir stúdents að Búðum, Eiríkssonar. Af 14 börnum þeirra dóu 5 ung; hin voru: Síra Jakob í Gaulverjabæ, síra Ólafur aðstoðarprestur í Sólheimaþingum, Páll rektor og orðabókahöfundur, Magnús stúdent, síra Jón í Gufudal, Sofía átti Bjarna Þórðarson prests í Kálfholti, Sveinssonar, Guðrún átti fyrr síra Ingimund Gunnarsson á Ólafsvöllum, síðar Sigurð Erlendsson að Ytri Gegnishólum, Hólmfríður átti Magnús Beinteinsson í Þorlákshöfn, Valgerður átti Gunnlaug sýslumann Briem (HÞ. Guðfr.; HÞ.: SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.