Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Árni Magnússon

(um 1625–1698)

Lögsagnari og lögréttumaður.

Foreldrar: Magnús sýslumaður Sæmundsson að Hóli í Bolungarvík og kona hans Sigríður Þorleifsdóttir í Búðardal, Oddssonar. Bjó að Hóli í Bolungarvík. Varð lögréttumaður 1668, en lögsagnari í Ísafjarðarsýslu 1687–90. Eftir hann eru annálsgreinir (pr. í Ann. bmf.), „Ein astronomisk uppskrift“ (þýðing úr dönsku í Thott), Mynt og mál í heil. ritningu eftir Henrik Bunting (þýðing í handritum), enn fremur handritauppskriftir.

Kona (8. sept. 1654) Þórunn (d. 10. sept. 1695) Þorleifsdóttir prests á Söndum, Bjarnasonar, Sonur þeirra: Sigmundur dó á 19. ári. Þröngvaði móðir hans honum til þessa hjónabands og tálmaði samförum hans og annarrar konu, Guðrúnar Gizurardóttur, en með henni átti hann 2 laundætur, sem upp komust: Guðrúnu, er átti Hálfdan nokkurn, Guðrúnu (aðra), sem átti Jón Þorkelsson á Kroppustöðum í Bolungarvík. Eitt launbarn átti Árni og með annarri konu (Ann. bmf. III; Saga Ísl. V; BB. Sýsl.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.