Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Árni Loptsson

(um 1623– enn á lífi 1703)

Prestur.

Foreldrar: Loptur Árnason í Sælingsdal og f.k. hans Þórunn Bjarnadóttir að Brjánslæk, Björnssonar. Mun hafa orðið stúdent frá Skálholti. Vígðist prestur að Þykkvabæjarklaustri 1650. Komst þegar í þras nokkurt við þá bræður Hákon og Magnús Þorsteinssonu, er þá höfðu klaustrið. Tók Stað í Aðalvík 1653 í skiptum við síra Árna Kláusson (sjá þar). Þar veiktist hann, kenndi það gerningum og vildi komast þaðan.

Síra Þórður Sveinsson í Ögurþingum hét þá (1656) að hafa skipti á prestaköllum við hann, en sagt er, að sóknarmenn í Ögurþingum hafi neitað að taka við honum, og þóktist þá síra Þórður laus allra mála, en þó komst á sætt með þeim 3. júní 1657, þannig að síra Þórður tæki Stað. En samtímis fekk síra Árni nokkura sóknarmenn í Dýrafjarðarþingum að kalla sig til prests þangað eftir síra Bjarna Arnórsson. Samþykkti byskup kosninguna 30. júní 1657 og skipaði hann prest í Dýrafjarðarþingum 14. júlí s. á. Bjó hann fyrst á Klukkulandi, síðar í Alviðru. En af þessu risu síðan illdeilur með síra Árna og sóknarmönnum hans sumum, og komu málin fyrir prestastefnu, enda fekk Sæbólsfólk leyfi til að njóta prestþjónustu annarstaðar, og var slíkt fátítt þá. Brynjólfur byskup Sveinsson hafði fremur stutt hann hingað til, en gerðist honum nú heldur andvígur, tók af honum 1669 innheimtu byskupstíunda í Ísafjarðarsýslu, sem hann hafði veitt honum 2 árum áður. Svo kom, að síra Árni treystist eigi til að haldast í prestakallinu, yfirgaf það 1671 og settist að á eignarjörð sinni Sælingsdal, en síðar á hjáleigu þeirrar jarðar, Gerði, og þar mun hann hafa átt heima til dauðadags. En eigi létti illdeilum síra Árna við þetta. Brátt eftir þetta risu málaferli með honum og mági hans, Rögnvaldi Sigmundssyni í Fagradal, og bar Rögnvaldur meðal annars á hann fjölkynngi og stefndi honum. En síra Árni færðist undan með tylftareiði og fangavottum, sem prestastefna 1678 hafði dæmt honum (alþb. 1679). Er auðsætt, að síra Árni hefir verið hörkumaður og óeirinn, en hagsýnn var hann og talinn harður í viðskiptum.

Kona (1657): Álfheiður Sigmundsdóttir í Fagradal, Gíslasonar. Hún hafði orðið þunguð, meðan hún sat í festum, af unglingi, Bjarna Narfasyni, og hét það barn, sem hún ól, Jón; frá honum eru ættir.

Börn síra Árna og Álfheiðar, er upp komust: Gísli á Einarsstöðum í Reykjadal, síðar Ási í Kelduhverfi, en síðast í Haga í Reykjadal (d. 14. okt. 1742, 83 ára), Þórunn átti síra Sigurð Snorrason að Brjánslæk, Jón byskup í Skálholti, Helga (d. 1740) átti Lopt Jónsson úr Flatey, Finnssonar (HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.