Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Árni Kláusson

(um 1610–1673)

Prestur.

Foreldrar: Kláus lögsagnari Eyjólfsson að Hólmum í Landeyjum og kona hans Ingibjörg Þorleifsdóttir, Ásmundssonar. Tekinn í Skálholtsskóla 1630 og varð stúdent þaðan, en vígðist 1637 og mun hafa þjónað Hvalsnesi um tíma, en sleppti því og gerðist sveinn Brynjólfs byskups Sveinssonar.

Varð um 1644 aðstoðarprestur síra Þorsteins Jónssonar á Stað í Aðalvík og fekk prestakallið eftir hann. En eftir lát konu sinnar (1652) festi hann ekki yndi þar vestra og fekk leyfi til að skipta við síra Árna Loptsson og taka við Þykkvabæjarklaustursprestakalli (1653), settist að á Mýrum. En er til kom, varð síra Árni Loptsson óánægður með skiptin og sakaði (1654) nafna sinn um að hafa skilið illa við staðinn. Það hrakti síra Árni Kláusson með vitnisburðum sinna fyrri sóknarmanna í Aðalvík, og varð ekki meira af. Árið 1660 fekk síra Árni Kirkjubæ í Vestmannaeyjum og var þar til dauðadags.

Kona 1: Ingibjörg (d. 1652) Þorsteinsdóttir prests á Stað í Aðalvík.

Börn þeirra: Ólafur lögréttumaður á Höfðaströnd í Grunnavík (f. um 1649, enn á lífi 1735), ókv. og bl., Jórunn (f, um 1651) var með Ólafi bróður sínum, óg. og bl., Margrét átti Odd Jónsson, bl.

Kona 2: Gróa (f. um 1628) Einarsdóttir í Vík í Mýrdal, Péturssonar.

Börn þeirra: Kristín, Vilborg (f. um 1658) átti fyrr Brynjólf lögréttumann Ásmundsson að Ingjaldshóli, en síðar Þorgeir Illugason í Hallsbæ (HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.