Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Árni Jónsson, Eyjafjarðarskáld

(um 1760–1. ágúst 1816)

Foreldrar Jón Jónsson á Ripkelsstöðum og kona hans Sigríður Hannesdóttir, en alinn upp að Stóra Hamri og lengstum við hann kenndur. Bjó síðast á Sámsstöðum í Eyjafirði, jafnan fátækur. Vel gefinn og gamansamur, og kennir þess í stökum eftir hann. Eftir hann eru allmörg kvæði og rímur (merkastar eru Víga-Glúmsrímur í hdr. í Lbs.).

Kona (1792): Ingibjörg Gunnsteinsdóttir (Kvæða-Gunnsteins), Gunnsteinssonar.

Börn þeirra: Jón á Öngulsstöðum, Þorgerður átti Jón Eiríksson í Torfum, Kristín, óg., átti launson með Sveini Eiríkssyni og var það Sigluvíkur-Sveinn, kunnur maður. Áður en Árni skáld kvæntist, átti hann launson með unnustu sinni (Sigríði Magnúsdóttur að Kambi, en hún brá heiti við hann), og var það Jóhannes skáld, sem fluttist til Austfjarða (Finnur Sigmundsson: Amma I; Blanda IV).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.