Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Árni Jónsson

(– –1652)

Prestur.

Foreldrar: Síra Jón í Húsavík (föðurnafn eigi greint, líkl. Jónsson, Sveinungasonar) og Guðrún Illugadóttir prests að Múla, Guðmundssonar. Vígðist 15. maí 1597 að Mývatnsþingum og bjó að Arnarvatni.

Missti prestskap um 1612 fyrir hórdómsbrot, en fekk uppreisn og líklega Mývatnsþing aftur, síðar Húsavík um 1624, en missti aftur prestskap fyrir sömu sakir 1625. Var 14. nóv. 1630 skipaður prestur á Þönglabakka frá fardögum 1631.

Sleppti prestskap 1649. Var síðan um hríð í Laufási, en fór síðan að Pálsgerði og andaðist þar. Góður kennimaður, hraustur að afli, skáldmæltur (honum eru eignaðar rímur af Illuga Gríðarfóstra).

Kona 1: Þorlaug (börn þeirra 2 dóu ung).

Kona 2: Gunnhildur.

Börn þeirra, er upp komust: Helga átti Tómas Gíslason í Nesi í Höfðahverfi, síðar í Pálsgerði, Þorlaug átti bónda í Svínárnesi á Látraströnd (HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.