Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Árni Jónsson

(um 1758–16. apr. 1827)

Kaupmaður o. fl.

Foreldrar: Jón Helgason að Gullsmiðsreykjum og kona hans Þorbjörg Bjarnadóttir frá Vogatungu, Jónssonar. F. í Katanesi á Hvalfjarðarströnd.

Ólst upp hjá móðursystur sinni Ingibjörgu Bjarnadóttur, konu Einars bryta Bjarnasonar í Skálholti, sem kom honum þar í skóla 1772, stúdent 9. maí 1778. Var fyrst á sumrum í þjónustu þeirra Finnssona, síra Halldórs og Steindórs sýslumanns, en síðasta sumarið þar og eftir stúdentspróf sveinn og skrifari Björns lögmanns Markússonar að Leirá, til 1783, er hann varð skrifari Thodals stiftamtmanns og fór með honum til Kaupmannahafnar 1785, var þar einn vetur ólaunaður skrifari hjá Chr. U. D. von Eggers. Kom til landsins 1786 og varð verzlunarmaður á Eyrarbakka. Stýrði gömlu verzluninni í Grindavík 1788–9, en keypti hana og fekk borgarabréf 12. sept. 1789, varð gjaldþrota þar og missti jafnframt eftirlitsstarf með verzlun á Eyrarbakka, en fluttist til Rv. og varð síðan verzlunarstjóri fyrir Chr. Jacobæus í Keflavík, en var vikið frá því starfi (um málaferli hans, sjá alþingisbók 1797 og 1798). Þegar skólinn var fluttur til Bessastaða, varð hann þar ráðsmaður og bryti (1805–8) fluttist síðan til Rv.

Í valdatíð Jörundar Jörgensens varð hann bæjarfógeti í Rv., héraðsdómari í Gullbringusýslu og jafnframt landfógeti í tæpar 3 vikur (2.–22. ág. 1809). Um hann orkti þá síra Páll skáldi „Býfógetavísur“. Eftir það hafðist Árni við í Rv. við skriftir, en fluttist til Keflavíkur með tengdasyni sínum, Óla verzlunarstjóra Sandholt, og var þar til dauðadags.

Kona (1790): Hólmfríður (f. 20. okt. 1760, d. 13. júlí 1819) Halldórsdóttir klausturhaldara Vídalíns á Reynistað, Bjarnasonar. Af þeim mægðum bar hann almennt nafnið „Reynistaðar-mágur“.

Börn þeirra: Síra Halldór á Presthólum, Guðrún s. k. Óla Egilssonar verzlunarstjóra Sandholts (HÞ.; sjá Jón Þorkelsson: Saga Jörundar hundadagakonungs; Helgi Briem: Sjálfstæði Íslands).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.