Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Árni Jónsson

(um 1666–um 1741)

Prestur.

Foreldrar: Síra Jón Loptsson í Saurbæjarþingum og kona hans Sigþrúður Einarsdóttir prests á Stað í Steingrímsfirði, Sigurðssonar.

Mun hafa orðið stúdent úr Skálholtsskóla 1687. Var síðan um hríð sveinn Magnúsar lögmanns Jónssonar að Ingjaldshóli. Vígðist 1694 aðstoðarmaður föður síns og fekk prestakallið við uppgjöf hans 1697. Hann bjó lengstum á eignarjörð sinni Hvítadal í Saurbæ, fyrst í Stóra Holti og síðar um hríð að Neðri Brekku, græddi í fyrstu mikið fé og keypti jarðir, en síðar tók fé mjög að ganga af honum, með því að hann gerðist hinn mesti drykkjumaður og þá stórlyndur og svakafenginn. Hann átti illdeilur við sóknarmann sinn mikils háttar, Þorstein Pálsson í Innra Fagradal, o. fl.

Honum var vikið frá prestskap 19. júlí 1722 fyrir drykkjuskaparhneyksli í Staðarhólskirkju á jóladag 1721; var sú frávikning staðfest í prestadómi á Þingvöllum 20. júlí 1723, og skyldi hann aldrei fá aftur prestskap.

Um 1730 fluttist hann að Eyri í Seyðisfirði, en 1731 að Strandseljum og 1732 er hann kominn búferlum að Súðavík, en 1735 er hann kominn í Vigur og mun hafa andazt þar.

Kona: Ingibjörg, laundóttir Magnúsar lögmanns Jónssonar að Ingjaldshóli.

Börn þeirra: Síra Magnús á Reynivöllum, Ólafur sýslumaður í Barðastrandarsýslu, Loptur í Fremra Hundadal, Jón (dó í Skálholtsskóla), Guðrún átti Ólaf lögsagnara Jónsson á Eyri í Seyðisfirði, Þórunn s. k. Magnúsar lögréttumanns Jónssonar á Brennisstöðum, Helga (dó miðaldra, óg. og bl.). Launöð dóttir síra Árna Guðrún átti“ Bjarna Bjarnason frá Knarrartungu, Guðmundssonar (HÞ.; SGrBtf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.