Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Árni Jónsson

(1705–1754)

Heyrari.

Foreldrar: Jón síðar byskup Árnason og kona hans Guðrún Einarsdóttir byskups, Þorsteinssonar. F. í Geldingaholti í Skagafirði. Var stúdent úr heimaskóla frá föður sínum um 1723. Skráður í stúdentatölu í háskólanum 21. okt. 1724, lauk embættisprófi í guðfræði 20. maí 1727, með 2. einkunn.

Kom samsumars til Íslands og var heyrari (kennari) í Skálholtsskóla 1 ár, en veiktist á geðsmunum, og var eignað of mikilli hörku föður hans í uppvexti. Fór utan til lækninga 1730 og kom aftur 1731, varð aldrei jafngóður. Hann fór með móður sinni frá Skálholti að Meðalfelli í Kjós og var þar til dauðadags, ókv. og bl. Í háskólanum varði hann 16. okt. 1725 tvær dispútatíur. Í handriti (Thott 169, 8vo., frumrit, uppskrift í ÍBR 108, 4to.) liggur eftir hann þýðing á riti Brochmands Sjálandsbyskups, „Það andlega stríð kristins manns“ (HÞ. Guðfr.; HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.