Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Árni Illugason

(23. dec. [13. dec., Vita]– 1754–11. ág. 1825)

Prestur.

Foreldrar: Síra Illugi Halldórsson að Borg á Mýrum og kona hans Sigríður Jónsdóttir, Steinssonar (byskups). F. að Borg. Var 1759–64 í fóstri hjá föðurbróður sínum, Bjarna sýslumanni Halldórssyni á Þingeyrum, en síðan hjá tengdasyni Bjarna, Jóni varalögmanni Ólafssyni að Miðhúsum á Reykjanesi og Víðidalstungu, og kostuðu þau hjón nám hans. Tekinn í Skálholtsskóla 1773, varð stúdent þaðan 9. maí 1778. Bjó að Stóru Borg 1780–4, að Hólum (Höfðahólum) á Skagaströnd 1784–6, á Harastöðum. 1786–T, við mikla fátækt. Fekk Grímsey 1787, vígður þangað 17. maí s.á., fór þaðan vorið 1795, meðal annars vegna veikinda konu sinnar, og var 1 ár embættislaus í Flatey á Skjálfanda, fekk Hof á Skagaströnd 4. apr. 1796 og var þar til dauðadags. Talinn þolinmóður í raunum sínum, glaðlyndur, hægur og hagorður. Drykkfelldur til muna. Helgidagapredikanir eru eftir hann í JS. 455, 8vo., kvæði t.d. í JS. 481, 8vo.

Kona 1 (15. nóv. 1779): Guðrún (d. 4. mars 1796) Grímsdóttir.

Börn þeirra: Jónatan (dó ungur), Halldóra (varð úti í hríð 1813) átti Guðmund Sveinsson í Eyjafirði, Sigríður átti Sigfús á Arnarstöðum í Eyjafirði Eldjárnsson.

Kona 2 (25. apr. 1797): Sesselja (d. 26. febr. 1816) Þórðardóttir að Stóru Borg, Einarssonar.

Börn þeirra, er upp komust: Síra Þórður síðast prestur að Mosfelli í Mosfellssveit, Ingibjörg átti Guðmund hreppstjóra Ólafsson á Vindhæli (þau skildu).

Kona 3 (17. júní 1817): Steinunn (f. 25. nóv. 1789, d. 30. maí 1864) Ólafsdóttir hreppstjóra á Harastöðum, Guðmundssonar. Synir þeirra: Jón bókavörður og þjóðsagnasafnari í Rv., Ólafur (dó ungur) (Vitæ ord.; HÞ.: SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.