Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Ari Þorkelsson

(um 1652–1730)

Sýslumaður.

Foreldrar: Þorkell sýslumaður Guðmundsson á Þingeyrum og kona hans Solveig Magnúsdóttir lögmanns að Munkaþverá, Björnssonar.

Hann lærði í Hólaskóla og varð stúdent þaðan 1673. Ari virðist eftir það um hríð hafa verið með móður sinni að Hólum í Eyjafirði, nema veturinn 1678–9, sem hann var hjá frænda sínum, Birni sýslumanni Gíslasyni í Bæ á Rauðasandi. Árin 1676 og 1677 voru málaferli með honum og móðurbróður hans, Birni sýslumanni Magnússyni að Munkaþverá, og stefndi Björn honum til alþingis fyrir galdur, en það ónýttist, með því að ekki hafði verið rannsakað í héraði, og varð ekki meira af. Árið 1686–7 var Ari lögsagnari í vesturhluta Barðastrandarsýslu, en fekk veiting fyrir þessum sama sýsluhluta 4. maí 1695 og hélt til 1707, en virðist þó gegna sýslustörfum til 1714. Hann hafði og umboð konungsjarða á Ingjaldssandi. Hann bjó í Haga á Barðaströnd eftir tengdaföður sinn, líklega frá 1681 og allt til dauðadags. Hann var ekki vinsæll með sýslubúum sínum, enda stórbrotinn í skapi, óeirinn og drykkjumaður, en talinn vel viti borinn. Deilur urðu miklar með honum og Teiti, syni hans, á efri árum hans.

Kona (1681): Ástríður (f. um 1652, d. 1734) Þorleifsdóttir stúdents í Haga, Magnússonar.

Börn þeirra, er upp komust: Þorkell (f. 1682, var í Skálholtsskóla 1700–1, d. 1705, bl.), Magnús herforingi (ingeniör-kapteinn) og landmælingamaður, síra Þorleifur prófastur á Breiðabólstað í Fljótshlíð, Teitur sýslumaður á Reykhólum, Halldóra eldri (f. 1691) kona frænda síns Hákonar í Haga Magnússonar frá Hólum, Benediktssonar (þau skilin með dómi 1741), Halldóra yngri (1692–1758) f.k. Þorleifs Kláusar Brynjólfssonar á Ökrum (þau skildu, bl.), Þórunn s.k. síra Björns Jónssonar Thorlaciuss í Görðum á Álptanesi (BB. Sýsl.; HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.