Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Árni Helgason

(27. okt. 1777–14. dec. 1869)

Prestur.

Foreldrar: Síra Helgi Einarsson, síðast á Eyri í Skutulsfirði, og kona hans Guðrún Árnadóttir prests í Gufudal, Ólafssonar. F. á Stað í Aðalvík. Tekinn í Reykjavíkurskóla hinn eldra 1795, stúdent:þaðan 1. júní 1799.

Var síðan í Skálholti og kenndi börnum Valgerðar Jónsdóttur, ekkju Hannesar byskups Finnssonar. Fór utan og var skráður í stúdentatölu 7. nóv. 1804, með 1. einkunn, lauk öðru lærdómsprófi 1805, með ágætiseinkunn, og guðfræðaprófi 16. apr. 1807, einnig með ágætiseinkunn.

Hann stundaði og nám í seminarium pædagogicum (eða málfræðingadeild). Fekk verðlaunapening háskólans úr gulli fyrir úrlausn guðfræðispurningar.

Hann lagði sig og eftir fornfræði og varð styrkþegi Árnasjóðs. Fekk Vatnsfjarðarprestad kall 22. mars 1808, en komst ekki út fyrr en 1809, vígðist 9. júlí s. á., en gegndi aldrei sjálfur prestakallinu, heldur hafði þar aðstoðarprest (síra Jón Mattíasson), enda hafði honum verið heitið kennarastöðu í Bessastaðaskóla eða beint bundinn til þess að taka við henni í veitingarbréfinu, og mun sjálfur hafa búizt við lektorsstöðu þar eftir Steingrím Jónsson, og má í rauninni telja, að hann hafi verið prettaður um það embætti.

Fekk Reynivöllu 24. okt. 1810, dómkirkjuprestsembættið í Rv. 27. maí 1814 og settist þá að í Breiðholti, gegndi og kennarastörfum í Bessastaðaskóla frá því í mars 1817 til 31. maí 1819, prófastur í Kjalarnesþingi 30. júlí 1821 til 1856, er hann sagði því lausu. Gegndi byskupsembætti settur 21. sept. 1823 til 14. maí 1825. Fekk Garða á Álptanesi 27. okt. 1825: (staðfesting konungs 13. okt. 1826) og átti þar heima til dauðadags. Gegndi byskupsembætti í annað sinn 14. júní 1845 til 2. sept. 1846).

Stiftprófastur að nafnbót 30. apr. 1828, varð r. af dbr. 1. nóv. s.á., heiðursmerki dannebrogsmanna 6. okt. 1853, byskupsnafnbót 7. okt. 1858 og fekk s.á. lausn frá prestskap. Einn af aðalstofnöndum hins ísl. bókmenntafélags og forseti deildarinnar í Rv. 1816–48, kjörinn heiðursfélagi 1831, en heiðursforseti félagsins 1848. Einn af aðalstofnöndum hins ísl. biblíufélags 1816. Sat í embættismannanefndinni í Rv. 1839 og 1841 og á alþingi 1845 og 1847 (varaþingmaður Reykjavíkur).

Ritstörf: Helgidagapredikanir (1. pr. Viðey 1822, 2. pr. Viðey 1839), fjöldi grafskrifta, eftirmæla og æviminninga, pr. og ópr. (sjá Lbs.). Átti talsverðan þátt í endurskoðun biblíunnar (Viðey 1841 og Rv. 1859); ritstjóri Sunnanpósts (2. og 3. árg. 1836 og 1838). Hann kenndi fjölda manna skólalærdóm, og urðu margir stúdentar frá honum.

Kona 1 (5. okt. 1809): Guðný (f. 1766, d. 22. júlí 1834) Högnadóttir í Ytri Skógum, Benediktssonar, og áttu þau 1 son, er dó ungur.

Kona 2 (15. ág. 1835): Sigríður (f. 20. sept. 1795, d. 9. okt. 1869) Hannesdóttir byskups, Finnssonar; þau bl. (Vitæ ord. 1809; HÞ.; HÞ. Guðfr.; Útfm. Rv. 1877; Jón Helgason: Árni stiftprófastur Helgason, Skírnir 1927).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.