Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Árni Halldórsson

(febr. 1776* –5. nóv. 1842)

Prestur.

Foreldrar: Halldór (d. 17. ág. 1804) Björnsson á Æsustöðum í Eyjafirði og kona hans Þórdís Bjarnadóttir, Sæmundssonar. F. * Vita 1778 (fæðingardagur ekki greindur) að Hólshúsum í Eyjafirði (skírður 17. febr. 1776). Lærði fyrst 1 vetur hjá síra Jóni Jónssyni að Möðrufelli, þá um tíma hjá síra Birni, bróður sínum. Tekinn í Hólaskóla 1796 og stúdent þaðan 20. maí 1801. Setti s. á. bú á Ljótsstöðum á Höfðaströnd og fluttist þaðan síðar að Bæ í sömu sveit. Skipaður prestur í Grímsey 11. okt. 1806 og vígðist 22. mars 1807. Fekk Stærra Árskóg 13. okt. 1809, en komst ekki í land fyrr en vorið 1810.

Fekk 25. júní 1816 Möðruvallaklaustursprestakall í skiptum við síra Jón Jónsson, og bjó fyrst að Auðbrekku, síðar að Möðruvallaklaustri, en síðan aftur að Auðbrekku. Fekk 23. júlí 1833 Tjörn í Svarfaðardal, fluttist þangað vorið 1834 og var þar til dauðadags. Talinn allgóður prestur, en gróðagjarn og samheldinn, fekk og efni með síðari konu sinni.

Kona 1 (1801) Þórdís (d. 25. mars 1836) Arngrímsdóttir á Ljótsstöðum, Eyjólfssonar.

Börn þeirra: Síra Stefán að Hálsi í Fnjóskadal, Arnþór að Auðbrekku (d. 1899, 88 ára).

Kona 2 (1. júní 1837): Helga (d. 19. júní 1866, um nírætt) Jónsdóttir að Reykjum í Hjaltadal, Jónssonar, ekkja Jóns Jónssonar í Samkomugerði (Vitæ ord. 1807; HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.