Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Árni Gíslason

(um 1549–23. dec. 1621)

Prestur.

Foreldrar: Gísli byskup Jónsson í Skálholti og kona hans Kristín Eyjólfsdóttir mókolls hins yngra í Haga, Gíslasonar. Varð prestur í Holti undir Eyjafjöllum 1572 og var þar til dauðadags. Hann var einn heldri klerka í Skálholtsbyskupsdæmi og prófastur í Rangárþingi um hríð. Hann var með síra Stefáni, bróður sínum, í yfirreið fyrir föður þeirra í Austfjörðum 1585. Árið 1586 má sjá, að hann er umboðsmaður föður síns á Gilsbakka og hefir þá líklega verið í yfirreiðum fyrir hann. Hann er talinn hafa samið rímtöblu (JÓl. Grv. Coll.).

Kona (1573): Hólmfríður Árnadóttir sýslumanns á Hlíðarenda, Gíslasonar.

Börn þeirra: Síra Gísli í Holti, Ólafur í Gunnarsholti, Eiríkur, Kristín átti Magnús Eiríksson, Sesselja átti Illuga Vigfússon á Kalastöðum, Guðríður átti Þorstein sýslumann Magnússon í Þykkvabæ, Guðríður (önnur) átti Orm sýslumann Vigfússon í Eyjum (HÞ.; BB. Sýsl.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.