Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Árni Guttormsson

(30. sept. 1799–8. júní 1839)

Prestur.

Foreldrar: Síra Guttormur Þorsteinsson að Hofi í Vopnafirði og kona hans Oddný Guttormsdóttir sýslumanns, Hjörleifssonar. F. að Hofi. Lærði hjá föður sínum, en varð stúdent úr heimaskóla með meðalvitnisburði frá síra Árna Helgasyni þá í Breiðholti, síðar í Görðum, 7. júní 1820. Var síðan með foreldrum sínum, en fór utan til Kaupmannahafnar 1824, veiktist og tók ekki aðgöngupróf, en kom heim til landsins vorið 1825 og var síðan í húsmennsku hjá foreldrum sínum. Fekk veiting fyrir Skeggjastöðum á Ströndum 15. maí 1838, en sagði því lausu um haustið og vígðist 9. sept. s. á. aðstoðarprestur föður síns. Hann andaðist að Hofi.

Kona (17. okt. 1825): Þórunn María (f. 16. sept. 1794, d. 1. júlí 1858) Guðmundsdóttir sýslumanns í Krossavík, Péturssonar.

Börn þeirra komust eigi á legg (Vitæ ord.; Lbs. 48, fol.; HÞ.: SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.