Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Árni Franzson

(1690–1757)

Prestur.

Foreldrar: Síra Franz Íbsson í Hruna og kona hans Solveig Árnadóttir prests í Hruna, Halldórssonar. F. í Hruna. Tekinn í Skálholtsskóla um 1705 og stúdent þaðan 1711. Átti síðan lengi óvígður heima hjá föður sínum, en var vígður honum til aðstoðarprests 18. apr. 1723. Fekk Hruna við lát hans og tók við staðnum 17. sept. 1739, þótt Jón byskup Árnason legðist í móti honum, enda hafði honum áður þókt hann lítt að sér og ámælt föður hans fyrir að halda honum um of til vinnu. Hann gegndi Reykjadalsprestakalli frá því um nýár 1724 fram á haust 1726. Hann var ókv. og bl. og dvaldist í húsmennsku í Hruna, en byggði öðrum jörðina. Hann var talinn góðmenni, en veiklaður á geðsmunum og lá oft í rúminu af þunglyndi, var og fótaveikur, svo að honum var erfitt um að sinna prestsverkum. Árið 1748 fekk hann sér aðstoðarprest, síra Árna Ólafsson, síðar í Gufudal, og var hann hjá honum 3 ár. Árið 1751 sleppti hann prestskap að öllu. Árið 1756 naut hann styrks (14 rd.) af fé því, sem ætlað var örvasa prestum, enda er þá svo að sjá sem hann hafi verið karlægur og með öllu heilsulaus (HÞ; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.