Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Árni Eiríksson

(um 1714–19. okt. 1753)

Stúdent.

Foreldrar: Síra Eiríkur Bjarnason á Hallormsstöðum og kona hans Þuríður Árnadóttir frá Tunguhaga, Eiríkssonar. Þess er getið, að hann hafi gengið fyrst í Skálholtsskóla, en farið síðan ásamt 3 öðrum skólapiltum með Erlendi rektor Magnússyni norður að Hólum. Þaðan varð hann stúdent, en eigi hefir það verið fyrr en 1732. Síðan var hann skrifari hjá Steini byskupi Jónssyni og þar eftir hjá Harboe, en við burtför hans (1745) fór hann að Viðvík, til Einars Hólaráðsmanns Jónssonar og Helgu Steinsdóttur byskups og var þar 1745–6, en í Odda 1746–7. Á alþingi 1746 fekk hann veiting fyrir Eiðum, en var svo veikur, að eigi var kostur að vígja hann, enda tók hann aldrei vígslu, en fluttist með Ólafi byskupi Gíslasyni (sem átti frændkonu hans) að Skálholti og var þar til dauðadags. Hann hafði á hendi skriftir fyrir byskup, var og einn vetur (1750–1) settur kennari (heyrari) í skólanum. Talinn hafa verið djákn (þ.e. haft djáknapeninga) í Viðey. Hann var söngmaður góður. Ókv. og bl. (HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.