Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Árni Böðvarsson

(1713–1776)

Skáld, stúdent.

Foreldrar: Böðvar stúdent Pálsson á Staðarbakka í Helgafellssveit og kona hans Ólöf Árnadóttir prests á Þingvöllum, Þorvarðssonar. Nam fyrst undir skóla (1726–9 eða jafnvel til 1730) hjá síra Jóni Þórarinssyni í Hjarðarholti. Gekk síðan í Hólaskóla og varð stúdent þaðan 1732. Var um tíma að Helgafelli hjá síra Snorra Jónssyni, og þar orkti hann hið alkunna kvæði „Skipafregn“ (1734), og er sonum síra Snorra (einkum síra Gunnlaugi) sumstaðar (í góðum heimildum) eignuð hlutdeild í því. Árið 1735 er hann tekinn að búa að Vatnabúðum í Eyrarsveit. Síðara hluta ævinnar bjó hann á Ökrum á Mýrum, og þar andaðist hann og hafði verið holdsveikur síðustu árin. Árni er eitt hið mesta rímnaskáld, sem uppi hefir verið, en auk þess orkti hann mörg önnur kvæði. Er margt varðveitt í frumriti, og „var hann skrifari góður. Eftir hann eru prentaðar rímur af Þorsteini uxafæti (Kh. 1771 og aftur 1858); af Agnari Hróarssyni (Hrappsey 1777); af Ingvari víðförla (Hrappsey 1777); síðari hluti rímna af Úlfari sterka (í fyrsta sinn í Hrappsey 1775, fyrri hlutinn eftir Þorlák Guðbrandsson). Óprentaðir eru þessir rímnaflokkar: Af Alexander og Lúðvík; af Ásmundi víkingi; af Brávallabardaga (eða Völsungum o.s.frv.); af Droplaugarsonum; af Fóstbræðrum; af Grími jarlssyni; af Hallfreði vandræðaskáldi; af Haraldi Hringsbana; af Hjálmtér og Ölvi; af Huga; af Herði og Hólmverjum; af Vittalín; af Þorsteini skelk. Meðal kvæða hans má nefna langt kvæði í 7 flokkum um Hálf og Hálfsrekka (sjá Lbs.). Sumar af rímum sínum helgaði hann Jóni sýslumanni Árnasyni að Ingjaldshóli, gaf honum próventu sína, og til varnar honum orkti hann „Arineld“ gegn Þorsteini Bárðarsyni í Vogatungu, til svars rímu hans af greifanum Stoides, sem er um sýslumann.

Kona 1: Helga Sigurðardóttir lögréttumanns á Saurum í Helgafellssveit, Hannessonar.

Þau áttu 2 börn, en ekki er manna af þeim komið. Þau voru skilin, með því að Árni átti (1742) barn fram hjá henni með giftri konu. Árið 1748 fekk Árni leyfi til að ganga af nýju í hjónaband.

Kona 2: Ingveldur (d. 1782) Gísladóttir lögréttumanns í Vogi, Þórðarsonar á Ökrum; þau bl. (HÞ.; Lbs.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.