Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Árni Arnórsson

(– –1561)

Prestur. Talinn launsonur Arnórs Finnssonar á Ökrum. Hann var förunautur síra Sigmundar Eyjólfssonar til byskupsvígslu (1537) og fekk síðan Hítardal eftir hann, 1538. Hann varð officialis 1540 og enn er síra Marteinn Einarsson fór utan til byskupsvígslu. Hann kemur og talsvert við upphaf siðskiptanna, og hafði Jón byskup Arason hann í varðhaldi að Hólum um tíma, eftir útkomu Marteins byskups. Eftir það gætir síra Árna lítt. Hann er talinn hafa drukknað í læk vestur á Arnarstapa. Synir hans eru taldir: Síra Pétur í Hvammi í Hvammssveit, Rögnvaldur og Arnór (PEÓl.Mm.; JH.Pr.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.