Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Ámundi Árnason

(um 1678–1707)

Spítalaráðsmaður.

Foreldrar: Síra Árni Ámundason að Setbergi og kona hans Þorbjörg eldri Björnsdóttir prests á Staðastað, Snæbjarnarsonar. F. (líkl.) á Staðastað. Stúdent úr Skálholtsskóla einhvern tíma á árabilinu 1698–1700. Fluttist með móður sinni vorið 1701 frá Setbergi að Eiði í Eyrarsveit. Salómon Jónsson, er var spítalaráðsmaður á Hallbjarnareyri andaðist 1702. Vildu ýmsir ná í það starf. Ámundi reið þá til fundar við Jón byskup Vídalín í Krossholti, sem þar var staddur (29. ág. 1702) á yfirreið um byskupsdæmið, og fekk frá honum meðmæli til Lárusar Gottrups, sem þá var umboðsmaður amtmanns. Fekk hann umboðsbréf frá þeim byskupi fyrir þessu starfi á alþingi 16. júlí 1703, en ekkja Salómons skyldi halda jörðinni fardagaárið 1703–4. Tók Ámundi til fulls við umráðum jarðarinnar 28. maí 1704. Andaðist í bólunni miklu, ókv. og bl. (HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.