Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Ámundi Pálsson

(um 1687–1714)

Prestur.

Foreldrar: Síra Páll Ámundason á Kolfreyjustað og kona hans Þórunn Guðmundsdóttir á Keldum á Rangárvöllum, Torfasonar. F. á Kolfreyjustað. Stúdent úr Skálholtsskóla 14. apr. 1709. Vígðist s.á. aðstoðarprestur síra Árna Álfssonar í Heydölum og fekk hálfan staðinn til umráða. Eftir lát síra Jóns Gizurarsonar í Berufirði (1710). lagði byskup fyrir síra Ámunda að gegna Berunessókn. Jón sýslumaður Þorláksson, sem þá bjó í Berunesi, kærði síra Ámunda fyrir byskupi og bar honum á brýn vanrækslu o. fl. Var síra Ólafi Stefánssyni í Vallanesi falið að rannsaka þetta, og segir hann 13. júní s.á., að síra Ámundi fái „ágætan vitnisburð“ frá sóknarfólkinu á báðum kirkjum, en að prestum, „sem með röksemd, trú og dyggð vilja standa í sínu embætti“ muni erfitt að „gera svo öllum líki“. Lauk svo, að byskup skrifaði Jóni sýslumanni mjög harðort bréf (10. ág. s. á.), en lagði jafnframt fyrir síra Ámunda að rækja vel embætti sitt. Féll þetta niður, enda andaðist Jón sýslumaður skömmu síðar á sama ári. Síra Ámundi andaðist í Heydölum, ókv. og bl. (HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.