Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Ámundi Jónsson

(1738–3. ág. 1805)

. Smiður. Foreldrar: Jón smiður (d. 1761) Gunnlaugsson í Vatnsdal í Fljótshlíð, síðar í Steinum undir Eyjafjöllum, og kona hans Þuríður (d. 1761) Ólafsdóttir í Steinum, Jónssonar. Lærði vefnað og vann í ullarverksmiðjunum í Reykjavík. Hóf síðan að stunda smíðar.

Var 2 ár hjá Sigurði alþingisskrifara Sigurðssyni á Hlíðarenda. Sigldi til Kh. 1767; kom heim 1770 og var þá fylgdarmaður danskra landmælingamanna. Bóndi á Tjörnum undir Eyjafjöllum 1776–88, í Stóradal 1788–92; keypti síðan hálft Syðra-Langholt í Hrunamannahreppi og bjó þar til æviloka. Dó í Gufunesi.

„Var snilldarmaður, vel að sér um flesta hluti, silfursmiður sæmilegur og málari góður“ (ættat. Stgr. bps.). Talið er, að hann hafi (fyrir 1799) smíðað 13 kirkjur, auk stofuhúsa og annarra smíða, meðal annars útbrotakirkju á Stóra-Núpi. Var og skurðhagur og prýddi smíðisgripi sína marga með útskurði eða málaði myndir á þá. í þjóð272 minjasafni eru nokkrir útskurðir og altaristöflur eftir hann.

Kona (1776): Sigríður (d. 17. mars 1805) Halldórsdóttir á Narfastöðum í Melasveit, Torfasonar. Börn þeirra, sem upp komust: Síra Halldór á Melstað, Þuríður átti fyrr Gest Gamalíelsson á Hæli og síðar Vigfús Þórðarson á Miðfelli, Sesselja átti fyrr Jón hreppstjóra Einarsson á Baugsstöðum (s. k. hans), síðar Þorkel Helgason í Geldingaholti, Guðrún átti Guðmund Björnsson í Langholti, Margrét átti Jón Hjörleifsson á Vatnsenda og í Vælugerði, Ólafur varð úti 1807 (Lesb. Morgunbl. 6. apr. 1941; o. fl.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.