Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Vorm (Vormsson) Bech

(1808–5. jan. 1853)

Vinnumaður.

Foreldrar: Vorm hreppstjóri Símonarson Bech að Geitaskarði og kona hans Lilja Daníelsdóttir á Steinsstöðum í Öxnadal, Sveinssonar. Hann „hafði lært hjá“ síra Gunnlaugi Oddssyni „og þókti ærið tregnæmur, og fekk eitthvert dimissionsattesti hjá honum“ 1832 (Lbs. 394, 4to.). Þetta kemur heim við það, að á hjúskapardegi er hann nefndur „dimissus“. Hann hefir „ekki beðizt embættis, enda mun hann lítt fær til þykja, gáfna og lærdóms vegna“. Í manntali 1835 er hann að Geitaskarði (þar átti hann hluta í) húsmaður, að því er virðist. Þegar hann kvæntist (1838) er hann í kirkjubók talinn til heimilis á Björnólfsstöðum, og þaðan var kona hans, Svanhildur Jónsdóttir (stjúpdóttir bónda þar). Hefir hann síðan slitið samvistum við hana og farið aftur að Geitaskarði, til bróður síns, er þar bjó, en er talinn meðal „burtvikinna“ úr sókninni 1850, talinn ókvæntur „vinnumaður“, og fluttist þá að Þingvöllum til bróður síns, síra Símonar; var þar til æviloka og þá talinn vinnumaður í prestþjónustubók (Lbs. 394, 4to.; Kirkjubækur).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.